Mateu Alemany, yfir­maður knatt­spyrnu­mála hjá spænska stór­veldinu Barcelona, segir að fé­lagið hafi verið 18 sekúndum of seint að senda inn alla nauð­syn­lega pappíra til þess að ganga frá fé­lags­skiptum Juli­an Araujo frá banda­ríska fé­laginu Los Angeles Galaxy.

Við­ræður Barcelona við for­ráða­menn Los Angeles Galaxty teygðu sig fram á kvöld á loka­degi fé­lags­skipta­gluggans í fyrra­dag og nú hefur Alemany greint frá því hversu raun­veru­lega ná­lægt Barcelona var því að klára fé­lags­skiptin endan­lega.

„Við náðum ekki að skrá hann inn í tæka tíð vegna villu í kerfinu, það munaði bara 18 sekúndum, við sjáum hvað FIFA hefur að segja um þetta," sagði Alemany í við­tali og ljóst að Barcelona gerir sér enn vonir um að Araujo geti fengið fé­lags­skipti.

Araujo í leik með Los Angeles Galaxy
Fréttablaðið/GettyImages

Araujo er 21 árs gamall hægri-bak­vörður, fæddur í Mexíkó en fyrstu skref sín á knatt­spyrnu­vellinum steig hann í akademíu Barcelona í Banda­ríkjunum.

Það var svo árið 2018 sem hann skipti yfir í akademíu Los Angeles Galaxy og þar hefur hann unnið sig upp í aðal­lið fé­lagsins.

Þar á hann að baki 109 leiki. Í þeim leikjum hefur hann skorað 2 mörk og gefið 14 stoð­sendingar.