Mateu Alemany, yfirmaður knattspyrnumála hjá spænska stórveldinu Barcelona, segir að félagið hafi verið 18 sekúndum of seint að senda inn alla nauðsynlega pappíra til þess að ganga frá félagsskiptum Julian Araujo frá bandaríska félaginu Los Angeles Galaxy.
Viðræður Barcelona við forráðamenn Los Angeles Galaxty teygðu sig fram á kvöld á lokadegi félagsskiptagluggans í fyrradag og nú hefur Alemany greint frá því hversu raunverulega nálægt Barcelona var því að klára félagsskiptin endanlega.
„Við náðum ekki að skrá hann inn í tæka tíð vegna villu í kerfinu, það munaði bara 18 sekúndum, við sjáum hvað FIFA hefur að segja um þetta," sagði Alemany í viðtali og ljóst að Barcelona gerir sér enn vonir um að Araujo geti fengið félagsskipti.

Araujo er 21 árs gamall hægri-bakvörður, fæddur í Mexíkó en fyrstu skref sín á knattspyrnuvellinum steig hann í akademíu Barcelona í Bandaríkjunum.
Það var svo árið 2018 sem hann skipti yfir í akademíu Los Angeles Galaxy og þar hefur hann unnið sig upp í aðallið félagsins.
Þar á hann að baki 109 leiki. Í þeim leikjum hefur hann skorað 2 mörk og gefið 14 stoðsendingar.