Sænski knattspyrnustjórinn Sven-Göran Eriksson sagði skemmtilega sögu af David og Victoriu Beckham í hlaðvarpi sem hann heimsótti. Þar sagði hann frá því er hann reyndi að fá kappann til Leicester.

Eriksson var stjóri Leicester, sem þá var í ensku B-deildinni, árið 2010. Beckham var þarna á mála hjá Los Angeles Galaxy í Bandaríkjunum.

Þegar Eriksson hitti Beckham á knattspyrnutengdum viðburði sá hann sér leik á borði og spurði kappann hvort hann hefði áhuga á að koma í Leicester þegar samningur hans við Galaxy rynni út. Þeir höfðu áður starfað saman er Eriksson var þjálfari enska landsliðsins.

„Hann sagði kannski, því hann vill ekki segja nei,“ segir Eriksson í hlaðvarpinu um hinn kurteisa Beckham.

Það var svo hins vegar eiginkona Beckham, Victoria, sem gaf Eriksson hart nei. „Sven, sérðu mig fyrir þér í Leicester?“ á Victoria að hafa spurt Eriksson. Þar með var málið útrætt.

Beckham er ein stærsta goðsögn í knattspyrnuheiminum. Hann lék á sínum tíma 115 leiki fyrir enska A-landsliðið, sem og fyrir stórlið á borð við Manchester United, Real Madrid og AC Milan.

Eriksson þjálfaði síðast landslið Filippseyja. Hann hætti þar árið 2019.