Arnar Gunnlaugsson þjálfari Víkings Reykjavíkur, var skiljanlega ekki tilbúinn til þess að fara yfir leikplan liðsins fyrir leikinn mikilvæga gegn Lech Poznan í Sambandsdeildinni í kvöld þegar að einn af pólsku blaðamönnunum fólst eftir því á blaðamannafundi í gær.

Víkingar fara inn í leik kvöldsins í Póllandi með eins marks forystu eftir að hafa unnið fyrri leik liðana hér heima á Víkingsvelli.

Einn af pólsku blaðamönnunum byrjaði á því að spyrja Arnar að því á blaðamannafundi í gær hvert leikplan Víkinga væri fyrir leikinn á morgun. Arnari gat ekki annað en brosað yfir spurningunni og svaraði á móti.

,,Ég læt þig fá leikplanið okkar seinna í dag svo þú getir gefið þjálfara Lech Poznan það,“ sagði Arnar brosandi.

,,Félagið okkar spilar samkvæmt ákveðnu DNA í okkar leikskipulagi. Við verjumst með varnarlínuna frekar hátt uppi á vellinum og reynum að pressa andstæðinginn með miklu tempói. Hafandi sagt það þá munum við láta á það reyna á morgun en ég er viss um að við munum þurfa að þjást aðeins meira á morgun heldur en í fyrri leiknum í Reykjavík.“

,,Lech Poznan er með mjög gott lið og er nú á heimavelli. Liðið mun mæta af fullum krafti í leikinn frá fyrstu mínútu og reyna setja okkur undir pressu. Við munum þurfa að þjást á morgun, þjást en ná fullkomnum leik til þess að eiga möguleika. Vonandi gerist það, við munum samt sem áður þurfa að reyna spila okkar leik.“

Leikur Lech Poznan og Víkings Reykjavíkur fer fram í Póllandi í kvöld og hefst klukkan 18:30 á íslenskum tíma. Blaðamannafund Víkinga frá því í gær má sjá í heild sinni hér fyrir neðan: