KSÍ tók ákvörðun í gær um að halda sig við fyrri áætlanir og stefna áfram á að ljúka keppni í öllum deildarkeppnum Íslands fyrir lok nóvembermánaðar. Pressan hefur aukist á KSÍ undanfarna daga um að taka ákvörðun um framhaldið enda rétt tæpar sex vikur til stefnu en félög fengu heimild til að æfa án snertingar í gær eftir tólf daga hlé frá æfingum. Ákvörðun KSÍ var tekin eftir ákveðnum skilyrðum og fór KSÍ sömu leið og KKÍ Íslands deginum áður.

Á fundi stjórnar KSÍ í gær var ákveðið að keppni skyldi hefjast á ný með nýrri niðurröðun sem verður kunngerð í dag en það var háð einu stóru skilyrði. Takmarkanir á æfingum og keppni yrð afnumdar ekki síðar en 3. nóvember. Það reynist lykilatriði til þess að mótin geti hafist á ný enda hafa lið á höfuðborgarsvæðinu ekki fengið að æfa undanfarnar tvær vikur. Á sama tíma hafa félög út á landi náð að halda úti æfingum en mörg þeirra hafa neyðst til að senda erlenda leikmenn heim í óvissunni hvort að áframhald yrði á keppnisfyrirkomulagi í íslenska boltanum.

Ákvörðun stjórnar KSÍ kom samdægurs og ákvörðun Almannavarnarnefndar höfuðborgarsvæðisins um að loka skyldi öllum íþróttamannvirkjum í eina viku að hið minnsta til að koma í veg fyrir hópamyndun í von um að það myndi hindra frekari útbreiðslu kórónaveirunnar á stór Reykjavíkursvæðinu.

Þessi áform eru því enn háð óvissu um ástandið í íslensku þjóðfélagi vegna útbreiðslu kórónaveirunnar en gerð í von um að ljúka Íslandsmótinu í meistaraflokkum. Ákvörðunin er því háð samþykki stjórnvalda á nýjum markmiðum KSÍ. Þá kom fram að KSÍ á enn eftir að finna út hvað gera skal í bikarkeppnunum þar sem Evrópusæti og milljónirnar sem fylgja því eru enn til boða karlamegin.

Ákvörðun KSÍ vakti mismikla gleði á samskiptamiðlinum Twitter í gær þar sem formenn hinna ýmissa knattspyrnudeild hjá félögum á Íslandi ræddu málið sín á milli. Rauði þráðurinn í umræðunni var hvenær félögin fengju heimild til að æfa ef hefja ætti tímabilið á ný. Ef ekki fáist heimild til að æfa með bolta fyrr en 3. nóvember eru lið á höfuðborgarsvæðinu nýfarin að æfa á ný þegar deildarkeppnin eigi að hefjast á ný á meðan lið utan Reykjavíkur séu búin að ná að halda nokkurn veginn striki.

Birgir Jóhannsson, framkvæmdarstjóri Íslensks toppfótbolta, hagsmunasamtaka félaga í tveimur efstu deildum karla og kvenna, tók í sama streng um áhyggjur af æfingatíma þegar Fréttablaðið ræddi við hann í gær.

„Þegar við ræddum afstöðu okkar hjá ÍTF var auðvitað ekki sami tónninn í öllum félögum hvernig farið skyldi að þessu. Heilt yfir tel ég að flest félög vilji klára mótið og það sé ánægja með að það sé reynt. Við höfum til 1. desember en það sem við höfum helst áhyggjur af er æfingaskortur. Fyrsta forgangsatriðið er að félögin á höfuðborgarsvæðinu fái heimild til að æfa fyrir fyrstu leikina og það sem fyrst.“

Aðspurður sagðist Birgir ekki vera viss hvað yrði gert ef æfinga- og keppnisbannið yrði framlengt í byrjun nóvember.

„Það yrði mjög niðurdrepandi og í raun útilokar að hægt sé að klára mótið fyrir 1 desember. Nýjasta útspilið að loka öllum íþróttamannvirkjum kom okkur í opna skjöldu en við getum þó reynt að æfa í sitthvoru lagi áfram næstu dagana. Það yrði fúlt fyrir leikmennina að keyra sig af stað á nýjan leik og 4. nóvember yrði bannið framlengt. Það yrði gjörsamlega fatalt, “ segir Birgir og ítrekaði að möguleikinn á æfingum væru mikilvægasti hluturinn.

„Stærsta púslið sem þarf að falla á réttan stað er að félögin fái að æfa sem allra fyrst. Erum búnir að vera í æfingastoppi í tvær vikur og það stefnir í að það nái yfir tæpan mánuð. Það verður ekki hægt að keyra beint í leiki, það myndi fara illa með leikmennina. Við viljum gera þetta fagmannlega en vitum hversu erfitt það er. Höfum ekki nokkrar vikur eins og í vor.“

Aðspurður segist Birgir efast um að félögin séu til í að lengja tímabilið ef til þarf.

„Ég efast um að það sé nokkur grundvöllur fyrir því að lengja mótið. Það er mikið lagt á leikmenn fyrir, það er að verða komið ár síðan undirbúningstímabilið hófst hjá sumum liðum.“