Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka hefur verið aflýst. Mikil óvissa hefur ríkt um örlög maraþonsins sem fara átti fram 22. ágúst næstkomandi eftir að COVID-19 smitum tók aftur að fjölga.

Í tilkynningu frá skipuleggjendum kemur fram að þeir sjái sér ekki fært að halda viðburðinn og uppfylla um leið nýhertar takmarkanir sóttvarnayfirvalda sem tóku gildi á föstudag.

Kveða þær meðal annars á um að tveggja metra reglan sé virt í hvívetna og bann við því að fleiri en 100 manns komi saman.

Að sögn Íþróttabandalags Reykjavíkur hefur á síðustu mánuðum verið leitað leiða til að halda Reykjavíkurmaraþonið í samræmi við tilmæli almannavarna en án árangurs.

„Þar sem að undanförnu hafa komið fram sýkingar í samfélaginu og mikil óvissa er um framhaldið kjósum við að sýna ábyrgð og setja þátttakendur ekki í óþarfa áhættu. Framundan er viðkvæmur tími þar sem skólahald er að hefjast sem og vetraríþróttastarf að fara í gang og því skynsamlegt að auka ekki hættu á smiti með stórum viðburði eins og Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka,“ segir jafnframt á vef maraþonsins.

Stór þáttur maraþonsins er söfnun þátttakenda fyrir góðgerðafélög á Íslandi. Leitað verður leiða til að halda þeirri söfnun áfram og minnka skaðann fyrir góðgerðafélögin að sögn skipuleggjanda.