Réttarhöld í máli sem Vanessa Bryant, ekkja Kobe Bryant höfðar gegn embætti lögreglu og slökkviliðs í Los Angeles sýslu hefjast í dag en Vanessa sakar viðbragðsaðila á vettvangi þyrluslyss, þar sem Kobe og Gianna Bryant létu lífið, um brot gegn friðhelgi einkalífs með því að hafa tekið mynd af slysstað og dreift þeim áfram.

Vanessa segir viðbraðgsaðilana ekki hafa tekið myndirnar í þágu rannsóknar heldur til þess eins að deila þeim með kollegum sínum sem og öðrum. Hún krefst skaðabóta sem nema mörgum milljónum dollara. ESPN greindi frá.

Þann 26. janúar árið 2020 brotlenti þyrla í Calabasas í Kaliforníu. Allir farþegar þyrlunar létu lífið í slysinu og þar á meðal voru Kobe Bryant og Gianna Bryant sem var aðeins 13 ára gömul.

Kobe lék með Los Angeles Lakers allan sinn feril í NBA deildinni, hann varð fimm sinnum NBA-meistari með liði sínu. 

Hann var 12 sinnum valinn einn af bestu varnarmönnum NBA-deildarinnar, var kjörinn mikilvægasti leikmaður deildarinnar vorið 2008 og tímabilin þar á eftir mikilvægaastur í úrslitakeppninni. Bryant sem hóf NBA feril sinn árið 1996 og lagði síðan skóna á hilluna árið 2016 er fjórði stigahæsti leikmaður í sögu deildarinnar.