Vísa þurfti breska kylfingnum Eddie Pepperell út móti Evrópumótaraðarinnar í annað sinn á innan við hálfu ári í gær þegar vandræði komu upp í skráningu á höggum.

Pepperell náði sjötta sæti á Opna breska meistaramótinu árið 2018 stuttu eftir að hafa unnið sitt fyrsta mót á Evrópumótaröðinni, næst sterkustu mótaröð heims.

Bretinn kom í hús á Education City-vellinum í Katar á 71 höggum í gær. Þegar Pepperell skilaði inn skortkortinu var meðspilari hans með sama höggfjölda en annað skor skráð á tveimur holum.

Samkvæmt reglum var Pepperell því vísað úr mótinu fyrir að skila inn röngu skorkorti. Það er ekki í fyrsta sinn sem Bretanum er vísað úr keppni.

Í nóvember síðastliðnum var Pepperell vísað úr móti þegar hann varð uppiskroppa með golfbolta á Turkish Airlines Open mótinu á Evrópumótaröðinni.