Hinn 29 ára gamli miðju­maður L.A. Galaxy, Aleksandar Katai, var rekinn úr liðinu í gær eftir að eigin­kona hans gerði lítið úr mót­mælendum í Banda­ríkjunum á sam­fé­lags­miðlum. Katai hefur ekki tjáð sig vegna málsins.

„Við erum klúbbur sem stendur fyrir starfs­fólkið okkar, leik­menn og sam­fé­lagið,“ sagði for­stjóri L.A. Galaxy Chris Klein. „Á­kvörðunin var því ekki sér­lega erfið. Við verðum að halda í okkar gildi. Þetta er ekki á­kvörðun sem tengist fót­bolta,“ sagði hann.

Aleksandar Katai og eigin­kona hans Tea Katai eru bæði frá Serbíu. Í einni færslu á sam­fé­lags­miðlum birti Tea mynd af tveimur lög­reglu­mönnum sem voru að keyra í gegnum þvögu mót­mælenda. Við myndina skrifar hún á serb­nesku: „Drepið hel­vítin!“

Önnur færsla hennar sýnir mynd af manni með kassa utan af Nike skóm. Við hana skrifar hún „Black Nikes Matter“. Eins og vitað er snúast mót­mælin í Banda­ríkjunum um kyn­þátta­for­dóma og kerfis­bundið of­beldi lögrelgunnar gegn svörtu fólki þar í landi. Ein­kunnar­orð mót­mælanna hafa verið „Black Lives Matter“.