„Við þurfum að taka pening úr barnastarfinu okkar til að greiða þetta. Við höfum ekki æfingagjöld og niðurgreiðum ferðalög því við þurfum að fara til Reykjavíkur í allar keppnisferðir og þetta mun koma af þeim peningum. Því miður,“ segja forsvarsmenn Harðar frá Ísafirði um 400 þúsund króna kostnað sem fylgdi því að halda heimaleik í bikarkeppninni í handbolta í október.

Harðarmenn eru ósáttir og geta lítið skilið í kostnaðnum. Segja að venjulega kosti um 140 þúsund að halda bikarleiki en Þórsarar rukki helminginn af 800 þúsund króna flugferð vestur á firði. Í frétt Bæjarins besta af leiknum, sem fram fór í október, kemur fram að gestirnir hafi komið á 19 manna Twin Otter vél frá Norlandair. „Þetta er alveg eðlilegt verð. Meira að segja ódýrara en venjulega því þeir fengu afslátt af þessu flugi,“ segir Friðrik Adolfsson, framkvæmdastjóri Norlandair. „Ég styrki öll íþróttafélög á Akureyri. Mismikið að vísu og það er ekkert launungarmál. Það er ekkert óeðlilegt við þetta verð,“ bætir hann við.

Harðarmenn rituðu harðorðan pistil á Fésbókarsíðu liðsins þar sem segir að félagið ráði ekki við að borga þennan pening. „Þórsarar vissu það alveg og hafa meðal annars vísað til þess að þetta sé réttlætanlegt þar sem Hörður vildi ekki spila leikinn á útivelli. En Hörður var heimalið – af hverju ætti félagið að þurfa að spila á útivelli?

Það er ágætt að það komi fram að Hörður spilaði leik við ÞórU í janúar á útivelli. Akstur til Akureyrar, gisting og akstur heim kostaði 120.000 kr. eða rétt tæpum 480.000 kr. minna en ferðakostnaður Þórs til Ísafjarðar. Áhugasömum skal bent á að um er að ræða jafnlanga leið, frá Akureyri til Ísafjarðar eins og frá Ísafirði til Akureyrar.

Leikmenn Harðar þurfa trúlega að borga 30 þúsund krónur á mann fyrir þennan eina heimaleik í bikarkeppninni.

Handboltinn er sjálfum sér verstur. Ömurleg niðurstaða mótanefndar sem er staðfest af stjórn HSÍ.

Svona vex handboltinn ekki. Svona deyr hann. Hafið skömm fyrir þeir sem tóku ákvörðun um þetta hjá Þór og mótanefnd. Afsökunarbeiðnir eða eftiráskýringar skila engu úr þessu. Leiðréttingar eða lagfæringar eru að litlu gagni því tjónið er orðið. Ánægja okkar af þátttökunni er farin,“ segir í pistlinum sem vakti mikla eftirtekt.

Hjalti Þór Hreinsson, sem á sæti í mótanefndinni, bendir á að liðin kjósi yfirleitt að fljúga á bikarleiki. Þetta einstaka mál hafi verið skoðað gaumgæfilega og komst mótanefndin að því að þótt kostnaður hafi vissulega verið hár hafi hann verið réttmætur. „Mögulega þarf að skerpa á orðalagi í reglugerðinni. Það er ein af niðurstöðunum sem kemur út úr þessu máli. Það er ekki tekið fram, það sem mætti kannski taka fram, að bæði lið skuli vera sátt við ferðatillögu gestaliðsins. Það þekkist alveg að fljúga á leikstað en keyra heim sem dæmi.“

Ekki náðist í Þorvald Sigurðsson, formann handknattleiksdeildar Þórs, en hann sagði í svari við pistli Harðar að Þór hefði farið eftir lögum og reglum. „Við höfum lagt fram öll okkar gögn og maila um þetta mál. Þætti eðlilegra að þið gerðuð þessa árás á þá sem setja reglurnar í stað þess að hnýta í þá sem fara eftir þeim. Tölurnar þarna ekki réttar...

Sambandið setur þetta upp, ekki Þór. Þannig að ef þetta er rangt, þá þarf hreinlega að endurskoða uppgjör fleirri bikarleikja. Kannski er það eina rétta. En það verður sambandið að segja til um.

Vil árétta, Þór hefur ekkert rangt gert. Bara farið eftir formúlu sem fengin var frá HSÍ.“