Ummæli sem fyrrum atvinnu- og landsliðsmaðurinn í handbolta, Logi Geirsson lét falla í hlaðvarpsþættinum Handkastið á dögunum hafa ratað í danska vefmiðla en TV2 Sport greinir frá því að fyrrum leikmaður vilji láta reka Guðmund Guðmundsson, landsliðsþjálfara íslenska landsliðsins í handbolta.
Gengi íslenska landsliðsins á HM í handbolta stóð ekki undir væntingum. Liðið féll úr leik í milliriðlum en vonir stóðu til að liðið gæti barist um verðlaunasæti á mótinu eða í það minnsta náð í úrslitakeppnina
Í kjölfar niðurstöðu mótsins fyrir íslenska landsliðið, sem var 12. sæti, spratt upp hávær umræða hér á landi um framtíð landsliðsþjálfarans Guðmunds Guðmundssonar. Afar skiptar skoðanir virðast vera á því hvort Guðmundur sé rétti maðurinn til þess að stýra landsliðinu áfram. Einhverjir vilja að breytingar verði gerðar á meðan að aðrir telja Guðmund rétta manninn í starfið.
„Fyrrum landsliðsmaðurinn Logi Geirsson gagnrýnir Guðmund Guðmundsson harðlega eftir að Ísland endaði í 12. sæti á HM og komst ekki áfram úr milliriðlinum,“ segir í frétt TV2 Sport sem vitnar í orð Loga í hlaðvarpsþættinum Handkastið.
Í þættinum segist Logi vilja sjá breytingar í þjálfaramálum íslenska landsliðsins og að miðað við þetta mót höndli Guðmundur landsliðsþjálfari ekki pressuna sem fylgir starfi hans.
„Hann er ekki gæinn sem er tilbúinn að fara með þetta lið og vinna. Hann talaði um of miklar væntingar og kröfur. Hvernig kemst þetta inn í liðið?" sagði Logi í handkastinu og bætti svo við:
„Ég veit ekkert hvað þarf að gerast. Ég er að hugsa um liðið og það þarf að breyta því. Það þarf strúktúr og taka til í þessu. Ég held að það eigi að skipta um mann í brúnni.“
Hlusta má á umræddan þátt Handkastsins í heild sinni hér fyrir neðan: