Regn­boga­lituðu fyrir­liða­böndin með á­letruninni One Love, sem FIFA hótaði liðum á HM í knatt­spyrnu refsingu ef þau leyfðu fyrir­liðum sínum að bera þau á hendi sér, hafa selst upp hjá fram­leiðanda fyrir­liða­bandanna.

Frá þessu greinir The At­hletic í kvöld og hefur eftir tals­manni hollenska fram­leiðslu­fyrir­tækisins Bad­ge Direct, sem stað­sett er í Utrecht, að fljót­lega eftir að knatt­spyrnu­sam­bönd nokkurra þátt­töku­þjóða á HM gáfu frá sér yfir­lýsingu og opin­beruðu hótanir FIFA hafi böndin, alls tíu þúsund talsins, rokið út.

Upp­haf­lega er um að reiða beiðni frá stjórn­völdum í Katar, gest­gjafa­þjóð HM í knatt­spyrnu þetta árið en hin­segin­leiki er bannaður sam­kvæmt lögum í landinu.

Böndin eru regn­boga­lituð sem stuðnings­yfir­lýsing við LGBTQ+ sam­fé­lagsins og með skila­boðunum ein ást.

Hótanir FIFA í þessum efnum fólust í sektum fyrir þau knatt­spyrnu­sam­bönd sem yrðu upp­vís af því að fyrir­liðar lands­liða þess bæru um­rædd fyrir­liða­bönd á sér og hótun um að fyrir­liðarnir gætu verið spjaldaðir fyrir að bera slíkt band.

Mál þessu tengt vakti at­hygli í dag en leik­menn þýska lands­liðsins mættu til leiks í upp­hitun í treyjum með regn­boga­lituðum röndum á.

Þá héldu leik­menn liðsins einnig fyrir munn sinn á liðs­mynda­töku fyrir leik til þess að vekja at­hygli á þessari þöggun sem FIFA og stjórn­völd í Katar standa fyrir.