Helmut Marko, einn af aðal­ráð­gjöfum For­múlu 1 liðs Red Bull Ra­cing segir það ekki koma sér á ó­vart að lið sitt leiði bæði stiga­keppni öku­manna sem og stiga­keppni bíla­smiða því aðal keppi­nautur liðsins, Ferrari, hafi gert allt rangt hingað til á tíma­bilinu.

Um­mælin lét hann falla eftir að Ferrari kastaði frá sér sigrinum í Ung­verja­land­s­kapp­akstrinum með ó­skiljan­legri á­kvörðun er varðaði keppnis­á­ætlun bíla þeirra.

Max Ver­stappen, öku­maður Red Bull Ra­cing leiðir nú stiga­keppni öku­manna með 80 stiga for­skoti og þá er Red Bull Ra­cing með 97 stiga for­ystu í stiga­keppni bíla­smiða.

Helmut Marko með Christian Horner, liðsstjóra Red bull
Fréttablaðið/GettyImages

Helmut Marko vildi hins vegar ekki segja til um það hvort tíma­bilinu væri nú nánast lokið þar sem for­ysta Red Bull væri svona mikil.

,,Ekki segja þetta," var svar Marko við spurningu blaða­manns Oster­reich. ,,Það eru níu keppnis­helgar eftir og enn 225 stig í pottinum ef þú vinnur allar keppnir, þar með talið sprett­keppnir og hröðustu hringi. Við getum ekki slappað af. Ferrari er að gera nánast allt rangt, til dæmis í Ung­verja­landi."

Marko segist ekkert skilja í á­kvörðunum Ferrari þá keppnis­helgina. Hann dregur þó ekkert úr árangri Red Bull Ra­cing hingað til og segir Max Ver­stappen, ríkjandi heims­meistara mótaraðarinn vera van­metinn.