Danski landsliðsframherjinn Caroline Møller reyndist Blikum afar erfið í kvöld en hún skoraði þrennu í fyrri hálfleik þegar Real Madrid vann 5-0 sigur á Blikum í B-riðli Meistaradeildar Evrópu.

Þetta var annar leikur Blika í riðlakeppninni en næstu tveir leikir eru gegn Zhytlobud-1 Kharkiv frá Úkraínu.

Eftir flotta frammistöðu Blika gegn PSG tókst spænska stórveldinu snemma að gera út um leikinn. Møller skoraði tvö mörk á fyrstu tuttugu mínútunum og fullkomnaði þrennuna fyrir lok fyrri hálfleiks.

Spænska landsliðskonan Olga Carmona gerði út um vonir Blika með fjórða marki Real Madrid í upphafi seinni hálfleiks og Lorena Navarro rak síðasta naglann í líkkistu gestanna undir lok leiksins.

Þetta var fyrsti leikur liðsins undir stjórn Ásmundar Arnarsonar sem tók við liðinu af Vilhjálmi Kára Haraldssyni á dögunum.