Hagnaður var á rekstri knatt­spyrnu­deildar Breiða­bliks á árinu 2022 og nam hann rúmum 157 milljónum króna. Hagnaðurinn kemur þó til vegna þess að fé­lagið fékk rausnar­lega gjöf frá stuðnings­manni fé­lagsins sem féll frá á síðasta ári.

Gríðar­leg aukning er í kostnaði hjá Breiða­bliki á milli ára en af þeim fé­lögum sem skilað hafa árs­reikningi sínum á þessu ári er Breiða­blik í sér­flokki þegar kemur að tekjum og út­gjöldum.

Rekstrar­tekjur Breiða­bliks á síðasta ári voru 902 milljónir og aukast um tæpar 230 milljónir á milli ára. Þar vegur þyngst 203 milljóna króna gjöf Guð­mundar Óskars­sonar, tekjur af seldum leik­mönnum voru 116 milljónir króna og aukast um 46 milljónir á milli ára.

Tekjur af mótum voru 259 milljónir árið 2022 og lækkar sá tekjuliður um tæpar 20 milljónir á milli ára. Rekstrar­gjöld Breiða­bliks voru 746 milljónir á síðasta ári og eykst kostnaðurinn við deildina um 120 milljónir á milli ára.

Þar munar mestu um gríðar­legan kostnað við leik­menn, þjálfara og yfir­stjórn. Breiða­blik borgaði í laun og annan kostnað 531 milljón árið 2022 en sá kostnaðar­liður hækkar um 110 milljónir á milli ára. Þessi mikla aukning í kostnaði skilaði sér innan vallar en meistara­flokkur karla varð Ís­lands­meistari í fyrsta sinn í tólf ár á síðasta ári.

Eiga mikla fjár­muni

Knatt­spyrnu­deild Breiða­bliks er vel stæð og veltu­fjár­munir deildarinnar eru 308 milljónir króna, munar þar mestu um verð­bréfa­eign sem er 178 milljónir króna en var 0 krónur árið á undan. Hafði fé­lagið hagnast um tvær milljónir á verð­bréfa­eign sinni á síðasta ári.

Er þessi verð­bréfa­eign færð undir þann styrk sem kom frá Guð­mundi Óskars­syni en um gjöfina segir í árs­reikningi Breiða­bliks: „Var það sett í sjóð sem verður notaður til góðra verka en allar út­hlutanir úr sjóðnum þarf að bera undir stjórn. Haldið er utan um sjóðinn á sér­stökum eigin­fjár­reikningi.“