Óhætt er að segja að forsíða Corriere dello Sport í dag vekji athygli þar sem þeir titla leik á föstudaginn Black Friday með mynd af tveimur af svörtu leikmönnum Inter og Roma.

Leikmennirnir sem um ræðir, Chris Smalling og Romelu Lukaku eru Íslendingum góðkunnugir eftir að hafa leikið í ensku úrvalsdeildinni um árabil.

Ítalska deildin hefur verið í vandræðum á þessu tímabili eftir að leikmenn hafa orðið fyrir kynþáttafordómum og ýtir forsíða dagsins undir slíkt þar sem fram kemur að þarna séu tveir risavaxnir litaðir menn á ferðinni.

Stutt er síðan Mario Balotelli gekk af velli í leik Brescia eftir að hafa þurft að hlusta á níðsöngva stuðningsmanna andstæðinganna.

Bæði Inter og Roma sendu frá sér tilkynningu þar sem félögin fordæmdu forsíðu blaðsins.