Marcus Rashord skoraði bæði mörk Manchester United og fiskaði vítaspyrnuna sem varð að seinna marki hans þegar liðið hafði betur 2-1 á móti Tottenham Hotspur í 15. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu karla í kvöld.

José Mourinho sem snéri aftur á sinn gamla heimavöll laut þar með í lægra haldi í sínum fyrsta skipti sem knattspyrnustjóri en liðið hafði borið sigur úr býtum í fyrstu þremur leikjum hans við stjórnvölinn.

Rashford náði forystunni fyrir Manchester United strax á sjöttu mínútu leiksins en Paulo Gazzaniga, markvörður Tottenham Hotpsur hefði svo sannarlega mátt gera betur í því marki.

Dele Alli sem hefur blómstrað undir stjórn Mourinho jafnaði metin fyrir Tottenham Hotspur undir lok fyrri hálfleiks en Rashford tryggði Manchester United stigin þrjú þegar hann skilaði vítaspyrnu sinni af öryggi í netið í upphafi seinni hálfleiks.

Vardy heldur áfram að vera á skotskónum

Leicester City heldur sér áfram í seilingarfjarlægð frá toppliði deildarinnar, Liverpool, en lærisveinar Brendan Rodgers báru sigurorð af Watford með tveimur mörkum gegn engu. Jamie Vardy og James Maddison skoruðu mörk Lecester City í leiknum.

Vardy er markahæsti leikmaður deildarinnar á yfirstandandi leiktíð með 14 mörk en þar á eftir kemur Tammy Abraham með 11 mörk. Abraham skoraði fyrra mark Chelsea í 2-1 sigri liðsins á móti Aston Villa og Mason Mount það seinna. Trezeguet skoraði hins vegar mark Aston Villa.

Wolves fór með sigur af hólmi 2-0 þegar liðið fékk West Ham United í heimsókn og Southampton kom sér úr fallsæti með því að vinna Norwich City með tveimur mörkum gegn einu.

Liverpool er á toppi deildarinnar með 40 stig en liðið er að vinna Everton 4-2 í leik sem stendur nú yfir. Leicester City kemur þar á eftir með 35 stig, Manchester City er í þriðja með 32 stig. Chelsea er svo í fjórða sæti með 29 stig og Wolves kemur þar á eftir með 23 stig.

Manchester United og Crystal Palace eru í sjötta til sjöunda sæti deildarinnar með 21 stig hvort lið og í sætinu þar fyrir neðan er Tottenham Hotspur með 20 stig.