Kanadíski rapparinn Drake á von á opinberum meistarahring frá Toronto Raptors og verður annar tveggja aðdáanda liðsins sem fá slíkan hring.

NBA-deildin hófst í gær með leik ríkjandi meistaranna í Toronto Raptors og New Orleans Pelicans og venju samkvæmt fengu leikmenn meistaraliðsins í fyrra afhenda sérstaka meistarahringa fyrir leik.

Engu er til sparað við hönnun slíkra hringja og eru um 640 demantar á meistarahring Toronto Raptors þetta árið.

Drake er fæddur og uppalinn í Toronto og er eitt af andlitum félagsins. Rapparinn er duglegur að koma fram á viðburðum tengdum félaginu og var mættur til að fylgjast með liðinu í úrslitaleiknum í fyrra.

Þá fékk hinn 67 ára gamli Nav Bhatia einnig meistarahring en Bhatia hefur verið viðstaddur alla heimaleiki Toronto Raptors frá stofnun félagsins árið 1995.

Bhatia sem er af indverskum uppruna mætti á sinn fyrsta körfuboltaleik árið 1995 þegar Toronto Raptors var að stíga fyrstu skref sín og hefur ekki misst af leik síðan þá.