Það kom upp leiðinlegt atvik í vikunni þegar stuðningsmenn Fenerbahce í Tyrklandi sungu um Vladimír Pútín, Rússlandsforseta, á leik gegn Dynamo Kyiv.

Leikurinn var liður í annari umferð undankeppni Meistaradeildar Evrópu. Dynamo fór með sigur af hólmi og er því komið í þriðju umferð.

Einhverjir stuðningsmenn Fenerbahce hófu að syngja nafn Pútíns eftir að liðið lenti undir í leiknum. Eins og flestir vita er innrás Rússa í Úkraínu í fullum gangi. Athæfið þykir því í besta falli afar ósmekklegt.

UEFA hefur staðfest að sambandið hafi hafið rannsókn á hegðun þeirra stuðningsmanna sem sungu nafn Pútíns.

Vasyl Bodnar, sendiherra Úkraínu í Ankara-héraði í Tyrklandi, segist hafa orðið leiður við það að heyra af athæfi stuðningsmannanna.

„Fótbolti er sanngjarn leikur. Í gær var Dynamo sterkari aðilinn. Það gerir mig mjög leiðan að heyra af hegðun stuðningsmanna Fenerbahce, sem studdu rússneskan morðingja sem er að sprengja landið okkar,“ skrifar Bodnar á samfélagsmiðla.