Ítalska knattspyrnusambandið er að rannsaka hver hóf dreifingu á bréfum þess efnis að banna eigi konur í  norðurstúku Lazio þar sem hörðustu stuðningsmennirnir sitja.

Fyrir fyrsta leik tímabilsins fengu stuðningsmenn einblöðunginn afhentan en á honum kom fram að fremsti hluti stúkunnar væri „heilagur“ og að engin kona mætti koma nálægt tíu fremstu sætaröðunum. 

Lazio sendi strax frá sér tilkynningu þar sem félagið fordæmdi þessa hegðun og voru aðilar handteknir grunaðir um að hafa dreift út þessum skilaboðum.

Ítalska knattspyrnusambandið hefur hafið rannsókn á málinu en stuðningsmenn Lazio hafa áður verið sakaðir um fasisma, nasisma, gyðingahatur, kynþáttafordóma og fleiri ódæði.