Arsene Wenger, fyrrverandi stjóri Arsenal og núverandi yfirmaður reglunefndar FIFA, hefur kynnt nýja rangstöðureglu sem mun, ef hún verður samþykkt, verða tekin upp á Íslandsmótinu í sumar. Hún verður þó ekki notuð á EM í sumar. Boðuð reglubreyting hefur fallið í misgrýttan jarðveg. Breska blaðið Independent segir einfaldlega að hugmynd Wengers sé skelfileg og dregur hvergi undan í skrifum sínum. Alls hafa 27 mörk verið dæmd af liðum í enska boltanum sökum rangstöðu vegna VAR, oft þar sem millimetrar skiptu máli – nú síðast þar sem Oliver Giroud skoraði fyrir Chelsea gegn Man­chester United því stóra tá hans var dæmd rangstæð. Áður hafa handarkrikarangstæður verið til umræðu og þessu vill Wenger breyta.

„Leikmaður verður ekki rangstæður ef einhver hluti líkama hans, sem getur skorað mark, er í línu við aftasta varnarmann jafnvel þó aðrir hlutar líkamans séu fyrir framan varnarmanninn,“ segir Wenger. „Við fáum ekki lengur rangstöðuákvarðanir sem ráðast á millimetrum þar sem sóknarmaðurinn er fyrir framan varnarmanninn,“ bætti Frakkinn við.

Þóroddur Hjaltalín, formaður dómaranefndar KSÍ, var ekki búinn að sökkva sér ofan í tillögu Wengers þegar Fréttablaðið sló á þráðinn til hans á Akureyri, en hann er að undirbúa komandi ársþing KSÍ sem fram fer um helgina. Honum líst þó vel á, en telur ólíklegt að þetta verði samþykkt á næsta fundi IFAB. Finnst
líklegra að þetta verði tekið til umfjöllunar og frekari skoðunar fyrst.

„Í dag er þetta þannig að ef einhver hluti líkamans er fyrir innan þá er leikmaður dæmdur rangstæður. Eins og Giroud markið hjá Chelsea þar sem löppin var fyrir innan. Eins og ég er að skilja þetta þá þarf allur líkaminn að vera fyrir innan. Að það sé meira klippt og skorið. Ég þarf þó aðeins að kynna mér þetta betur.“

Þeir sem skrifa knattspyrnulögin, IFAB, ætla að hittast í Belfast 29. febrúar og ræða komandi breytingar. Verði þetta samþykkt munu þær taka gildi 1. júní en þó er búið að segja að þær muni ekki verða notaðar á EM. Reglan verður þó, ef samþykkt, væntanlega notuð hér á landi jafnvel þó VAR sé ekki í notkun hér á landi. Gamla góða mannsaugað er enn við lýði hér á landi. „VAR eins og UEFA kynnir þetta og notar í Meistaradeildinni til dæmis og Evrópudeildinni og landsliðunum líka, er ekki notað nema það séu augljós mistök dómara. En í rangstöðunni er þetta ekki jafn auðvelt. Þar eru komin mælitæki sem geta sagt til um hvort leikmaður er rangstæður eða ekki miðað við regluna eins og hún er í dag. Það er bara alls ekkert augljóst við það og er svolítið kjánalegt að hafa hluta af reglunum þannig að hið mannlega auga geti ekki séð atvikið. Í gamla daga var það þannig að sóknarmaðurinn naut vafans en með VAR er ekki neinn vafi. Ég held að ég kvitti undir svona breytingu, án þess að hafa kynnt mér hana til hlítar.“

Þóroddur segir að Íslendingar séu yfirleitt fyrstir með allar reglubreytingar sem séu samþykktar á þessum IFAB fundum. „Þetta hefur auðvitað minni áhrif á okkur þar sem við erum ekki að notast við VAR en við höfum alltaf byrjað Íslandsmótið út frá nýjustu reglubreytingum – sem er ákveðið á þessum fundi. Við fáum undantekningu frá IFAB til að byrja með reglurnar fyrr og tökum þær inn í Íslandsmótið frá byrjun.“