Spænska knattspyrnufélagið Real Madrid tilkynnti í kvöld að fyrirliði karlaliðs félagsins, Sergio Ramos, muni fara frá félaginu í sumar.

Spænski landsliðsmiðvörðurinn hefur leikið með Real Madrid í 16 ár en hann kom til Madrídarliðsins frá Sevilla árið 2005.

Ramos hefur leikið 671 deildarleiki fyrir Real Madrid en á þessum 16 árum hefur hann unnið spænsku deildina fimm sinnum, spænska konungsbikarinn tvisvar sinnum, Meistaradeild Evrópu fjórum sinnum og heimsmeistarakeppni félagsliða jafn oft.

Á síðustu leiktíð glímdi Ramos töluvert við meiðsli en hann er ekki með Spáni á Evrópumótinu sem nú stendur yfir vegna þeirra meiðsla.

Talið er líklegast að Manchester City, PSG eða Manchester United muni tryggja sér krafta Ramos fyrir næsta tímabil.