Sergio Ramos, varnarmaður Real Madrid, fékk í kvöld gult spjald í leik liðsins gegn Real Betis en það reyndist vera í 162. skiptið sem dómari gefur honum gult spjald í deildinni.

Með því komst hann upp að hlið varnarmannsins Alberto Lopo sem lék um árabil með Espanyol, Deportivo og Getafe yfir flest gul spjöld í sögu deildarinnar.

Hinn 31 árs gamli Ramos á að baki 380 leiki fyrir Real Madrid í deildinni en þar áður lék hann 39 leiki fyrir Sevilla. Alls 419 leikir en hann fær því gult spjald í rúmlega þriðja hverjum leik.

Hann hefur löngu sannað sig sem einn af bestu varnarmönnum heims en það hefur fylgt honum í gegnum ferilinn að hann hefur verið duglegur að safna spjöldum. 

Á hann einnig metið yfir flest rauð spjöld(23) í spænsku úrvalsdeildinni.