Samkvæmt heimildum The Athletic hefur Rangnick samþykkt sex mánaða samning sem Manchester United bauð honum. Í kjölfarið mun hann síðan fá tveggja ára samning hjá félaginu í öðru starfi á knattspyrnusviði.

Rangnick mun því yfirgefa starf sitt sem yfirmaður íþrótta- og þróunarmála hjá Lokomotiv Mosku og halda til Manchester United.

Ole Gunnar Solskjær, var sagt upp störfum sem knattspyrnustjóri Manchester United á sunnudaginn síðastliðinn.

Manchester United vildi í kjölfarið semja við knattspyrnustjóra til bráðabirgða út yfirstandandi keppnistímabil, þá verður samið við framtíðar knattspyrnustjóra félagsins fyrir næsta tímabil.

Rangnick hefur áður verið knattspyrnustjóri liða á borð við Hannover, Schalke, Hoffenheim og Red Bull Leipzig.

Þá stýrði hann einnig lítt þekktu liði Ulm upp í þýsku úrvalsdeildina í fyrsta skipti í sögu félagsins. Þá hefur hann einnig gegnt stöðu yfirmanns knattspyrnumála hjá Red Bull Salzburg og Red Bull Leipzig á sínum ferli við góðan orðstír.

Rangnick verður þó ekki á hliðarlínunni er Manchester United mætir Chelsea um helgina. Líklegt er að hans fyrsti leikur verið heimaleikur á Old Trafford gegn Arsenal þann 2. desember næstkomandi.

Manchester United er í 8. sæti ensku úrvalsdeildarinnar um þessar mundir með 17 stig eftir 12 leiki. Þá tryggði liðið sér sæti í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu með sigri á Villarreal á þriðjudaginn.

Fréttin verður uppfærð