Portúgalska knattspyrnustjarnan Cristiano Ronaldo er byrjaður að láta færa eigur sínar frá Manchesterborg og yfir til heimalandsins Portúgal. The Sun segir almenning í Lisabon hafa rekið upp stór augu er bílafloti Ronaldo mætti á götur borgarinnar.
Ronaldo er nú án félags eftir að hann og Manchester United komust að samkomulagi um að binda enda á samning sín á milli.
Leikmaðurinn gerði allt vitlaust með umdeildu viðtali sem hann bað um og fór í hjá breska fjölmiðlamanninum Piers Morgan.
Ronaldo sagði farir sínar ekki sléttar hjá Manchester United þar sem hann væri gerður að svörtum sauð. Þá sagðist hann ekki bera virðingu fyrir knattspyrnustjóra félagsins, Hollendingnum Erik ten Hag því hann bæri ekki virðingu fyrir honum.
Hluti bílaflota Ronaldos er mættur á götur Lisabon í Portúgal, þar á meðal Cadillac Escalade sem og Bentley Flying Spur bifreiðarnar.
Ronaldo er nú á Heimsmeistaramótinu í knattspyrnu með portúgalska landsliðinu en mótið fer fram í Katar þessa dagana.
Óvíst er á þessari stundu hvað tekur við hjá Ronaldo eftir heimsmeistaramótið en hann er þessa dagana orðaður við félag í Sádi-Arabíu.
