Rakel Hönnudóttir skoraði fyrsta mark tímabilsins í Allsvenskan fyrir sænska félagið Bunkeflo í dag en þetta var fyrsti deildarleikur hennar fyrir félagið eftir vistarskipti frá Breiðablik í byrjun árs.

Rakel byrjaði leikinn í fremstu víglínu en Anna Björk Kristjánsdóttir, miðvörður íslenska landsliðsins í knattspyrnu, var á sínum stað í miðri vörn Bunkeflo.

Er þetta annað tímabil Bunkeflo í efstu deild en Hammarby komst 2-0 í upphafi seinni hálfleiks. Rakel svaraði um hæl fyrir gestina og fimm mínútum seinna var Amanda Kander búin að jafna fyrir Bunkeflo.

Á lokamínútum voru Hammarby-konur sterkari og bættu við tveimur mörkum á seinustu tíu mínútunum sem skyldi liðin að.

Á sama tíma lék Kristianstads undir stjórn Elísabetar Gunnarsdóttur fyrsta leik sinn á tímabilinu og var Sif Atladóttir á sínum stað í miðri vörn Kristianstads. Lauk leiknum með 1-1 jafntefli.

Verður svo Íslendingaslagur um næstu helgi þegar þessi lið mætast á heimavelli Bunkeflo.