Rakel Hönnudóttir hefur skrifað undir samning við Breiðablik á nýjan leik. Rakel lék 158 leiki með Breiðablik á árunum 2012-2017 og skoraði í þeim leikjum 68 mörk.

Hún varð bikarmeistari með Breiðabliki árin 2013 og 2016 og Íslandsmeistari árið 2015. Auk Kópavogsliðsins hefur Rakel leikið með Þór/KA hér heima. Þá hefur hún leikið með danska liðinu Bröndby.

Í lok árs 2017 fór Rakel til sænska úrvalsdeildarliðsins LB07 í Malmö. Eftir eitt tímabil í Svíþjóð skipti Rakel yfir til Reading á Englandi þar sem hún lék í ensku úrvalsdeildinni á síðasta keppnistímabili.

Rakel hefur þegar leikið 100 landsleiki fyrir Íslands hönd og skorað níu mörk fyrir íslenska landsliðið.

Þetta er fjórði leikmaðurinn sem kemur til Blika eftir að síðustu leiktíð lauk. Fyrir síðustu helgi kom hinn ungi og efnilegi framherji, Sveindís Jane Jónsdóttir, á láni frá Keflavík og þar áður fékk Breiðablik Hafrúnu Rakel Halldórsdóttur frá Aftureldingu og Vigdísi Eddu Friðriksdóttur frá Tindastóli.