Einn af bifvélavirkjum Ferrari-liðsins í Formúlunni er fótbrotinn eftir að Kimi Raikkonen keyrði á hann í kappakstrinum í Bahrein um helgina. Átti atvikið sér stað þegar finnski ökuþórinn kom í dekkjaskipti og viðhald á bílnum.

Ökuþórinn var í þriðja sæti í kappakstrinum þegar atvikið átti sér stað en hann var dæmdur úr leik enda óheimilt að koma inn á brautina með misgóð dekk. Var Ferrari sektað 50.000 evrur fyrir atvikið.

Birtist grænt ljós fyrir Raikkonen til að leggja af stað en þá átti Francesco Cigorini enn eftir að klára að skipta um afturdekkið vinstra megin. Reyndist sköflungur hans brotinn en hann fór í aðgerð í gær og er á batavegi.

Ferrari-menn höfðu þó einhverju að fagna um helgina en liðsfélagi Raikkonen hjá Ferrari, Sebastian Vettel, bar sigur úr býtum í keppninni en það var annar sigur hans í röð í upphafi tímabilsins.