Ragnick segist hafa átt samtöl við forráðamenn Manchester United , í þeim samtölum hafi skilaboðin verið skýr. ,,Ég er núna í starfi til sex mánaða. Við höfum ekki rætt það hvað mun gerast í sumar. Ef þeir vilja tala við mig um það munum við sjá hvað gerist. Ef allt fer að óskum hér gæti ég stungið upp á því að við myndum halda áfram á sömu braut líkt og ég gerði hjá RB Leipzig."

Áætlanir Manchester United gera ráð fyrir því að Ragnick taki við stöðu ráðgjafa hjá félaginu að tímabili loknu en ljóst er að ef vel gengur hjá félaginu innan vallar, mun það reynast erfitt fyrir forráðamenn félagsins að horfa fram hjá Ragnick.

Ragnick segir starfið hjá Manchester United vera eitt af þeim störfum sem ekki sé hægt að hafna. ,,Ég er vel að mér í því hvað er að eiga sér stað í ensku úrvalsdeildinni. Ég veit að leikmannahópurinn býr yfir miklum hæfileikum og mikilli reynslu. Áskorunin verður að koma á meira jafnvægi. Í gærkvöldi þurftum við þrjú mörk til þess að vinna leik. Liðið fékk á sig tvö mörk og það er of mikið."

Michael Carrick hefur stýrt Manchester United í síðustu leikjum meðan beðið var eftir því að beiðni Ragnicks um atvinnuleyfi í Bretlandi væri samþykkt. Carrick tilkynnti í gær að hann myndi hætta störfum hjá félaginu og Ragnick þykir það miður. ,,Ég fékk vitneskju um ákvörðun hans fyrir tveimur dögum síðan. Ég átti samtal við hann þar sem að ég reyndi að sannfæra hann um að halda áfram hjá okkur en á endanum þurfti ég að sætta mig við ákvörðun hans."