Í gær var greint frá því að í kringum sautján leikmenn Manchester United hefðu það í hyggju að reyna yfirgefa herbúðir félagsins á næstu mánuðum.

Leikmenn hafa ekki verið sannfærðir síðan að Ragnick tók við stjórnartaumunum á Old Trafford, tilfinningin er sú að félagið standi í stað.

Samkvæmt frétt Daily Mail um ástandið innan herbúða Manchester United segir að Ragnick telji sig ekki hafa nægan tíma til þess að breyta því sem þarf að breyta fyrir lok tímabils. Ragnick er aðeins með samning sem knattspyrnustjóri hjá liðinu út yfirstandandi tímabil en áætlanir Manchester United gera ráð fyrir því að hann taki síðan að sér hlutverk ráðgjafa hjá félaginu.

Heimildir Daily Mail herma að þar sem Ragnick sé á stuttum samning hjá félaginu, hafi það þau áhrif að leikmenn Manchester United trúi ekki jafn mikið á þær aðferðir sem hann sé að beita sem og hugmyndafræðinni, ólíkt því ef hann væri knattspyrnustjóri til lengri tíma.

Hafa ber í huga að mörg þessara vandamála sem Ragnick á nú við, voru þegar til staðar þegar að hann skrifaði undir samning við Manchester United. Hins vegar heyrast raddir þess efnis að leikmenn félagsins séu ósáttir með æfingarnar sem eru lagðar fyrir þá sem og gæði þjálfaranna sem Ragnick hefur fengið inn í þjálfarateymi sitt.