Ragnick tekur við sem bráðabirgða knattspyrnustjóri Manchester United og hefur skrifað undir sex mánaða samning við félagið þess efnis. Hann mun síðan færa sig yfir í annað starf á knattspyrnusviði félagsins þegar að þeim samningi lýkur.

John Murtough, yfirmaður knattspyrnumála hjá Manchester United, hefur í gegnum árin haft miklar mætur á Ragnick sem knattspyrnustjóra en svo virðist sem aðdragandinn að ráðningu hans hjá Manchester United teygi anga sína aftur til upphafs nóvembermánaðar.

Ragnick hefur undanfarna mánuði starfað sem yfirmaður á íþrótta- og þróunarsviði hjá rússneska félaginu Lokomotiv Mosku og samkvæmt heimildum The Athletic fóru forráðamenn Manchester United að kafa dýpra í stöðu hans og samningsmál hjá rússneska félaginu eftir tap gegn Manchester City þann 6. nóvember síðastliðinn.

Næstu vikuna eftir það voru fulltrúar á vegum Manchester United beðnir um að skoða það hvort möguleiki væri á því að ná Ragnick frá Lokomotiv Moskvu.

Eftir símtal frá Murtough á sunnudaginn talaði Ragnick einnig við Ed Woodward, fráfarandi framkvæmdarstjóra Manchester United sem og Richard Arnold, arftaka hans.

Í kjölfar jákvæðra umræðna um möguleikann á því að Ragnick tæki við sem bráðabirgðastjóri Manchester United, var ákveðið að hann myndi ferðast til Lundúna á þriðjudaginn síðastliðinn þar sem hann átti fund með forráðamönnum Manchester United

Auk Ragnicks, höfðu forráðamenn Manchester United einnig kannað stöðuna hjá knattspyrnustjórunum Ernesto Valverde og Rudi Garcia en Ragnick var þeirra fyrsti kostur.

Það reyndist ekkert vandamál fyrir Manchester United að ná Ragnick frá Moskvu. Félag hans þar sýndi mikinn skilning á stöðu hans.

Samkvæmt heimildum The Athletic, vita forráðamenn Manchester United af áhuga Mauricio Pochettino, knattspyrnustjóra Paris Saint-Germain, á því að koma og taka við knattspyrnustjórastöðunni hjá félaginu. Það hins vegar breytti litlu fyrir forráðamenn Manchester United sem sáu það sem erfitt verkefni að reyna næla í Pochettino frá PSG á þessum tímapunkti á tímabilinu.