Ragnhildur Kristinsdóttir, kylfingur úr GR, stefnir á að gerast atvinnukylfingur í haust og taka þátt í úrtökumóti fyrir LPGA-mótaröðina, sterkustu mótaröð heims.

Þetta staðfesti Ragnhildur í samtali við Fréttablaðið í vikunni. Hún er nýútskrifuð úr Eastern Kentucky háskólanum þar sem hún átti góðu gengi að fagna með háskólaliði skólans á fimm árum.

„Ég klára áhugamennskuna út sumarið og líklegast fram á haustið og geri ráð fyrir að gerast atvinnkylfingur í vetur. Ég er búin að vera að skoða alla möguleika og núna er á dagskrá að skrá sig í fyrsta úrtökumót fyrir LPGA.“

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir er eini kylfingurinn frá Íslandi sem hefur komist inn á LPGA-mótaröðina, sterkustu mótaröð heims í kvennagolfi.

„Ég er orðinn Bandaríkjamaður í mér,“ segir Ragnhildur glettin og heldur áfram: „Ég hef lært á bandaríska golfið sem er öðruvísi en í Evrópu og hentar að ég held mínum leik mjög vel.“

„Ef maður kemst í gegn um annað stig úrtökumótsins fyrir LPGA fær maður þátttökurétt á næst sterkustu mótaröðinni sem mér finnst líka spennandi kostur.“