Ragnheiður Ríkharðsdóttir, fyrrverandi alþingiskona, íhugar að bjóða sig fram til formanns KSÍ. Greint var fyrst frá á vef fotbolti.net.

„Ég er að velta þessu fyrir mér. Þetta er ekki grín. Það þarf að senda inn tilkynningu að minnsta kosti hálfum mánuði fyrir þingið sem er 15. febrúar þannig ég er að kanna baklandið og velta málum fyrir mér,“ segir Ragnheiður í samtali við Fréttablaðið í kvöld.  

Ragnheiður greindi frá þessu á Facebook í kvöld og segir þar að hún hafi mikla stjórnunarreynslu, reynslu af félagsmálum og að hún sé mikil áhugamanneskja um knattspyrnu og hafi verið það frá barnsaldri og telji að sú reynsla gæti nýst henni í starfinu. 

Áður hefur Geir Þorsteinsson tilkynnt um framboð sitt gegn Guðna Bergssyni sem hefur verið formaður félagins síðastliðin tvö ár. 

Sjá einnig: Geir gefur kost á sér til formanns KSÍ