Albert Brynjar Ingason, leikmaður karlaliðs Fylkis í fótbolta, var gestur í hlaðvarpsþættinum Dr. Football sem settur var í loftið í dag. Þar ræddi hann stöðu Ragnar Sigurðssonar sem lék með Fylki þegar liðið féll úr efstu deild síðasta sumar.

„Ragnar er að skoða það hvort hann geti fundið neistann aftur og komið hreint og beint fram með það. Hann er búinn að vera reyna finna neistann, ekki bara með því að fara í Fylki heldur líka þegar hann fór frá Rússlandi til FC Kaupmannahafnar.

Hann var að reyna komast í skemmtilegt umhverfi en það virkaði ekki fyrir hann. Hann reyndi að koma heim en hann var ekki í standi. Ég vil að hann komi sér í stand og taki ákvörðun eftir það. Hann er bara að skoða þetta,“ sagði Albert Brynjar í þættinum.

Ragnar, sem er uppalinn Fylkismaður, hefur spila 97 leiki fyrir Íslands hönd og í þeim leikjum hefur hann skorað fimm mörk.