ísland varð í kvöld fyrsta liðið til þess að leggja Tyrkland að velli í undankeppni EM 2020 í knattpsyrnu karla. Lokatölur í leik liðanna sem fram fór á Laugardalsvellinum urðu 2-1 Íslandi í vil.

Ragnar Sigurðsson sem varð í kvöld fimmti leikjahæsti leikmaður í sögu íslenska liðsins kom Íslandi yfir á 21. mínútu leiksins.

Jóhann Berg Guðmundsson átti þá frábæra fyrirgjöf úr aukaspyrnu frá vítateigshorninu inn á tyrkneska teiginn og Ragnar skallaði boltann snyrtilega í markið af fjærstönginni.

Ragnar var svo aftur á ferðinni þegar tæpur hálftími var liðinn af leiknum. Birkir Bjarnason skallaði þá hornspyrnu Gylfa Þórs Sigurðssonar á fjærstöngina þar sem Ragnar var réttur maður á réttum stað og stangaði boltann í netið.

Þetta voru fjórða og fimmta landsliðsmörk Ragnars.

Dorukhan Toköz strengdi líflínu fyrir Tyrkland með því að minnka muninn skömmu fyrir lok fyrri hálfleiks en skalli hans eftir horn rataði í fjærhornið á íslenska markinu.

Birkir fékk tvö fín færi til þess að auka forystu íslenska liðsins í fyrri hálfleik og Jón Daði Böðvarsson sem leiddi framlínu Íslands í leiknum ógnaði sífellt með krafti sínum og hraða.

Þrjú lið jöfn á toppi riðilsins eftir fjóra leiki

Þá voru Gylfi Þór og Jóhann Berg einkar lunknir við að finna sér svæði í hættulegum stöðum og skapa sér álitleg skotfæri. Gylfi var nálægt því að bæta við þriðja marki íslenska liðsins í upphafi seinni hálfleiks.

Íslenska liðið hélt áfram tökum sínum á leiknum framan af seinni hálfleik. Jón Daði sem hafði verið frábær í leiknum fór af velli eftir rúman klukkutíma leik og Kolbeinn Sigþórsson leysti hann af hólmi í framlínunni. Kolbeinn lék þar af leiðandi sinn 50. landsleik í kvöld.

Síðasta skipting Íslands kom svo þegar rúmar 10 mínútur voru eftir af leiknum en þá kom Arnór Ingvi Traustason inná fyrir Jóhann Berg.

Ragnar fékk gott tækifæri til þess að fullkomna þrennu sína undir lok leiksins. Fyrirgjöf Gylfa Þórs rataði þá beint á kollinn á Ragnar sem skallaði boltann yfir.

Þessi sigur þýðir að Frakkland, Tyrkland og Ísland eru jöfn með níu stig eftir fjórar umferðir á toppi riðilsins. Næstu leikir íslenska liðsins eru gegn Moldóvu og Albaníu í byrjun september síðar á þessu ári.