Fylkir kreisti fram jafntefli þegar liðið sótti KR heim í þriðju umferð Pepsi Max-deildar karla í knattspyrnu í kvöld. Það var Valdimar Þór Ingimundarson sem tryggði liðinu 1-1 jafntefli í leik liðanna á Meistaravöllum í Vesturbænum.

Danski framherjinn Tobias Thomsen kom KR-ingum yfir með því að skora fyrsta deildarmark sitt fyrir liðið í sumar á 34. mínútu leiksins en þar áður hafði Pálmi Rafn Pálmason brennt af vítaspyrnu.

KR hafði forystuna fram í uppbótartíma leiksins þegar þung pressa gestanna úr Árbænum skilaði sér og Valdimar Þór jafnaði metin með sínu fyrsta marki í sumar.

Fylkir og KR hafa hvort um sig fimm stig í fjórða til fimmta sæti deildarinnar eftir þessi úrslit en Breiðablik, ÍA og FH eru á toppnum með sjö stig hvert lið.

Gunnar Þór Gunnarsson varnarmaður KR og Kolbeinn Birgir Finnsson vængmaður Fylkis berjast um boltann í leik liðanna í kvöld.
Fréttablaðið/Ernir