Ragnar Bragi Sveinsson leikmaður Fylkis og Ómar Ingi Guðmundsson þjálfari HK komu í settið hjá Íþróttavikunni með Benna Bó sem sýnd er á Hringbraut á föstudögum.

Bæði lið fóru upp í Bestu deildina og voru langbest nánast í allt sumar.

Ragnar Bragi sagði að liðið hefði lent í smá brekku í júníbyrjun og gerðu jafntefli við Selfoss og tapaði fyrir HK. Duttu úr bikarnum gegn Ægi. „Við vorum bara ekki búnir að finna liðið en svo small það í byrjun júlí og það er búið að vera nánast sama lið síðan þá sem hefur staðið sig vel. Síðan þá hafa verið endalausir sigurleikir, held ég 12 í röð.“

Spennan hefur ávalt verið mikil í Lengjudeildinni en í ár voru liðin nánast í sérflokki og það var snemma ljóst að KV og Þróttarar úr Vogum færu niður. „Hjá okkur var ströggl í byrjun en við höfðum gott að átta okkur á því að gæðin í liðinu eitt og sér var ekki nóg. Að fá tvo tapleiki í fyrstu þremur minnir mig ýtti við okkur. Ég er samt sammála að við vorum tvö bestu liðin. Ég held að niðurstaðan sé verðskulduð,“ sagði Ómar.

Ragnar benti á að Fylkir hefði verið í betra formi en önnur lið og það hefði tikkað eftir klukktíma leik. „Við vorum í betra formi en mörg önnur lið. Sérstaklega á heimavelli höfum við keyrt yfir liðin. Það var stóri munurinn í sumar. Mörg lið, sérstaklega fyrir neðan miðja deild, voru þau ekki í nægilega góðu líkamlegu ásikomulagi til að gera góða hluti.“