Ragnar Sigurðsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, hefur framlengt samning sinn við danska úrvalsdeildarliðið FC Köbenhavn út ágústmánuð. Það er vefmiðillinn Copenhagen Sundays sem greinir frá þessu.

Samningur Ragnars við FC Köbenhavn átti að renna út 30. júní síðastliðinn en hann var framlengdur fyrsti fram í lok júlí og nú aftur til loka ágústmánuðar vegna seinkunar keppnistímabilsins í Danmörku og þátttöku FC Köbenhavn í Evrópudeildinni.

FC Köbenhavn leikur seinni leik sinn við nýkrýnda Tyrklandsmeistara, Istanbul Basaksehir, á heimavelli sínum, Parken, miðvikudaginn 5. ágúst.

Ragnar sem varð 34 ára gamall fyrr í sumar kom á frjálsri sölu til FC Köbenhavn í upphafi þessa árs eftir dvöl sína hjá Rostov í Rússlandi.