„Fyrsta markið kemur upp úr engu og svo skora þeir annað ódýrt mark. Við erum síðan óheppnir að ná ekki að jafna í endann. Við áttum fullt af færum en markmaðurinn þeirra var að verja og þeir ná að blokkera þessi skot,“ segir Ragnar Sigurðsson í samtali við Fréttablaðið eftir leik kvöldsins þar sem Ísland tapaði gegn Sviss á Laugardalsvelli, 1-2.

Strákarnir eru fallnir niður í B-deild Þjóðadeildarinnar þar sem þeir munu leika næst þegar keppnin fer fram.

Hann telur að þrátt fyrir að liðið sé fallið í B-deild muni það ekki skipta höfuðmáli hvaða andstæðingum þeir mæta þegar dregið er í riðla í undankeppni EM á næsta ári. Gengi undanfarinna vikna sé hins vegar ekki nógu gott þrátt fyrir að byggja megi á frammistöðunni gegn Sviss og Frakklandi.

„Síðustu tveir leikir hafa verið nokkuð góðir og við áttum meira skilið úr þeim báðum. Þetta er samt eitthvað til að byggja á og þótt við séum pirraðir núna þá var margt jákvætt í þessu,“ sagði Ragnar að lokum.