Hörður frá Ísafirði getur skráð sig í sögubækurnar í kvöld með jafntefli eða sigri gegn Þór frá Akureyri sem myndi tryggja liðinu sæti í efstu deild karla í handbolta á næsta tímabili. Axel Sveinsson, leikmaður Harðar, segir eftirvæntinguna í bænum mikla en segir leikmenn með báða fætur á jörðinni fyrir stærsta leik tímabilsins.

,,Við erum ekki með hausinn uppi í skýjaborgunum, framundan er verkefni sem við eigum eftir að klára. Þeir (Þórsarar) eru komnir til þess að vinna og þeir munu ekki gefa okkur leikinn. Við þurfum að mæta vel klárir til leiks,“ segir Axel en búist er við þéttpökkuðu íþróttahúsi á Ísafirði í kvöld.

Harðverjar hafa náð mögnuðum árangri með handboltadeild sína á stuttum tíma og innan seilingar er deild þeirra bestu. Axel segir árangurinn á tímabilinu í raun vera samspil þriggja þátta.

,,Fyrst og fremst er þetta liðið með stráka innanborðs sem hafa verið að æfa handbolta saman í nokkur ár. Þetta eru strákar sem hafa alist upp í handbolta og hafa verið í stöðugri þjálfun.“

Þá segir hann þjálfara liðsins Carlos Martin Santos, sem tók við liðinu árið 2019, hafa unnið gríðarlega gott starf á Ísafirði.

,,Carlos er einn af þeim bestu þjálfurum sem ég hef séð og komist í kynni við. Hann leggur rosalega mikinn metnað í allt það sem hann gerir, er í fjörutíu tíma að undirbúa eina æfingu og leggur rosalega mikið í þetta verkefni.“

Þá sé umgjörðin í kringum liðið eins og best verður á kosið.

,,Umgjörðin í kringum liðið er komin á rosalega hátt gæðastig. Það er fólk í bænum sem er að leggja sig fram í því að halda handknattleiksdeildinni á floti.“

Aðspurður að því hvað það er sem trekki Ísfirðinga að á leiki Harðar segir Axel það eiginlega bara vera handbolti sem íþrótt.

,,Handbolti er bara það geggjað sport og Ísfirðingar eru það geggjaðir að þeir vilja bara sjá meiri geggjun. Handbolti er hálfgert þjóðarsport okkar Íslendinga og heimamenn vilja fá að sjá handbolta á Ísafirði, þess vegna mætir það á völlinn og styður við bakið á okkur.“

Það komi honum hins vegar ekki á óvart hversu góðan stuðning Harðverjar fái á sínum heimaleikjum.

,,Fólk hérna heima vill alltaf sjá íþróttafélögin okkar keppa í fremstu röð og heimafólkið lætur sjá sig. Sama hvort við erum að tala um fótbolta, körfubolta eða handbolta.“

Mikil samheldni og samstaða ríkir í leikmannahópi Harðar og Axel segir mikla vináttu ríkja meðal allra leikmannanna.

,,Við erum allir bestu vinir, það er bara þannig. Það er alveg sama hvort þú komir frá Japan, Lettlandi eða Ísafirði. Við erum allir bestu vinir og hópurinn er mjög þéttur. Aftur á móti er leikmannahópurinn ekkert endalaust breiður en það kannski hjálpar okkur líka vegna þess að við erum bara við og við hjálpum hvor öðrum.“

Stemmningin fyrir kvöldinu er orðin rafmögnuð á Ísafirði fyrir leik kvöldsins og Axel segist finna fyrir því.

,,Það er ekki hægt að fara út í búð hérna á Ísafirði án þess að vera spurður út í leikinn. Það eru allir að hugsa um kvöldið og fylgjast með,“ segir Axel Sveinsson, leikmaður Harðar frá Ísafirði sem getur með jafntefli eða sigri í kvöld tryggt sér sæti í efstu deild karla í handbolta.

Leikur Harðar og Þórs frá Akureyri hefst klukkan 19:30 í íþróttahúsinu á Torfnesi á Ísafirði. Frítt er á völlinn.