Það ræðst í dag hvort að Stelpurnar okkar mæti Belgum eða Portúgal í umspili fyrir lokakeppni HM næsta þriðjudag. Liðin mætast fyrir utan Porto í kvöld þar sem sigurvegarinn kemst á seinna stig umspilsins.

Íslenska kvennalandsliðinu dugar sigur gegn Belgum eða Portúgal til að komast í lokakeppni HM í fyrsta sinn. Keppnin fer fram í Ástralíu og Nýja-Sjálandi næsta sumar.´

Það er stutt síðan Stelpurnar okkar mættu Belgum síðast en leik liðanna á Evrópumótinu lauk með jafntefli. Það var fjórða viðureign liðanna og hefur Ísland unnið einn, Belgía einn og tveimur lokið með jafntefli.

Íslenska kvennalandsliðið hefur átt betra gengi að fagna gegn Portúgal þar sem Ísland hefur unnið sex leiki af níu og aðeins tapað tveimur. Einu tapleikirnir komu í æfingaleik í júní 1995.

Stelpurnar okkar eru við æfingar í Algarve í Portúgal þessa dagana og ferðast yfir til Belgíu eða á leikstað eftir því hver úrslitin verða í dag.