Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari Íslands, ræddi við Lars Lagerback um hlutverk innan þjálfarateymis Íslands á dögunum og mun Arnar ásamt Eiði Smára Guðjohnsen funda með Norðmanninum um helgina.

Þetta kemur fram á 433.is í dag þar sem Arnar ræddi ráðningar inn í þjálfarateymi landsliðsins.

Á blaðamannafundinum þar sem tilkynnt var að Arnar og Eiður myndu taka við landsliðinu greindi Arnar frá því að búið væri að ræða við Lars um að koma að þjálfun landsliðsins en það ætti enn eftir að útrétta í hvaða hlutverki.

„Það er ekki kominn niðurstaða, við töluðum við hann um helgina og eigum annan fund með honum í vikunni. Ég og Eiður tölum við hann í vikunni, við erum að reyna að finna lendingu,“ segir Arnar Þór í viðtali sem birtist á 433.is í dag.

Arnar segir að Eiður hafi gefið Lars hin bestu meðmæli en Eiður lék undir stjórn Norðmannsins í undankeppni HM 2014 og EM 2016 ásamt því að vera í hópnum sem fór á Evrópumótið árið 2016.

„Það er mikill vilji hjá okkur til að fá Lars með okkur í þetta, Eiður þekkir Lars miklu betur en ég. Eiður sagði við mig í gær að það væri ekki ekki bara þekking og reynsla sem Lars kemur inn í þetta. Heldur þekkir hann umhverfið, allt starfsfólkið og mikið af leikmönnum. Það er mikill vilji af okkar hálfu að fá hann inn.“

Um leið staðfesti Arnar Þór að Tom Joel yrði áfram styrktarþjálfari karlalandsliðsins en hann sinnir sama hlutverki hjá Leicester City í ensku úrvalsdeildinni. Þá er búið að finna markmannsþjálfara en það á enn eftir að kynna hann.