Utanríkisráðuneytið sver af sér fullyrðingar Vöndu Sigurgeirsdóttur, formanns KSÍ um að ráðuneytið hafi ekki talið eitthvað mæla gegn ferð KSÍ og karlalandsliðs þess til Sádi-Arabíu þar sem leikinn var landsleikur við heimamenn. Þetta kemur fram í svari ráðuneytisins við fyrirspurn Stundarinnar.

KSÍ hefur verið harðlega gagnrýnt fyrir ákvörðun sína um að taka boði Sádi-Araba um að leika landsleik í landinu, þar með hafi sambandið tekið þátt í miklum íþrótta hvítþvotti enda er orspor Sádi-Arabíu hvað mannréttindi varðar alls ekki gott.

Utanrikisráðuneytið segist hafa fengið fyrirspurn frá KSÍ sem sneri að mögulegu samstarfi KSÍ við Sádi-Arabíu um uppbyggingu kvennaknattspyrnu í Sádi-Arabíu en ekki að umræddum vináttulandsleik.

Það er þvert á það sem formaður sambandsins, Vanda Sigurgeirsdóttir hélt fram í viðtali við Vísi í júní fyrr á þessu ári.

,,Við heyrðum í utanríkisráðuneytið á sínum tíma til að vita hvort að þar væri talið að eitthvað mælti gegn því að við spiluðum þennan leik. Svo var ekki," sagði Vanda við Vísi.

KSÍ hefur hingað til ekki viljað gefa upp hversu há upphæðin, sem sambandið fékk frá Sádi-Arabíu fyrir umrætt verkefni, hafi verið.

Ómar Smárason, upplýsingafulltrúi KSÍ, segir í samtali við Stundina að KSÍ ætli ekki að gefa upp hversu há upphæðin var sem Sádarnir reiddu fram en að hún hafi verið lægri en þær 100 milljónir króna sem Stundin spurði KSÍ sérstaklega um. „Ég ætla ekki að staðfesta upphæðina en þetta er fjarri lagi,“  segir Ómar.