Það hefur hvorki gengið né rekið á tímabilinu hjá Manchester United og nú berast fregnir af því að allt að sautján leikmenn liðsins séu ósáttir innan herbúða félagsins.

Ronaldo hefur verið með bestu mönnum Manchester United á tímabilinu en þess ber að geta að leikmenn liðsins sem sköruðu framúr á síðasta tímabili, virðast hafa dregist aftur úr.

,,Maður hefur séð muninn á Fernandes síðan að Ronaldo kom til félagsins. Áður en að Ronaldo kom, var Fernandes aðal maðurinn. Núna er Ronaldo aðal maðurinn," sagði Agbonlahor í samtali við Football Insider.

Agbonlahor telur að Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjórinn sem fékk Ronaldo aftur til Manchester United, viti það núna að það hafi verið mistök að næla í kappann. ,,Það er svo mikil spenna þarna. Ef við horfum á heildarmyndina þá veit Solskjær upp á sig sökina, það voru mistök hjá honum að næla í Ronaldo. Já Ronaldo hefur skorað mkörk en það eru mörk sem Greenwood eða Rashford hefðu skorað í hans stöðu."

Það er hans skoðun að Ronaldo eigi að vera seldur. ,,Fyrir mitt leyti myndi ég leyfa Ronaldo að fara í sumar og láta Greenwood, Sancho og Rashford spila saman."

Cristiano Ronaldo er goðsögn í sögu Manchester United og það yrði hreint út sagt ótrúlegt ef hann færi frá félaginu á ný eftir aðeins eitt tímabil innan raða þess í endurkomunni. Ronaldo á að baki 313 leiki fyrir félagið, hefur skorað 132 mörk og gefið 72 stoðsendingar. Hann hefur orðið Englandsmeistari í þrígang og unnið Meistaradeild Evrópu einu sinni með félaginu.

Manchester United er sem stendur í 7. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 31 stig eftir 19 leiki. Tuttugu og tveimur stigum á eftir toppliði Manchester City. Liðið er hins vegar komið í 16-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu þar sem andstæðingur þess verður Atlético Madrid.