Viðskiptakonan Alison Brittain hefur verið ráðin formaður ensku úrvalsdeildarinnar. Hún mun taka við starfinu á næsta ári af Peter McCormick.

Brittain er ein fremsta viðskiptakona Bretlands. Hún er til að mynda forstjóri stórfyrirtækisins Whitbread.

Brittain er fyrsta konan til að gegna starfi formanns ensku úrvalsdeildarinnar.

„Ég hef fylgst með fótbolta síðan ég var barn. Ég er því gríðarlega ánægð með að hafa verið ráðin formaður ensku úrvalsdeildarinnar,“ segir Brittain.

„Deildin hefur gríðarlega mikla þýðingu á landsvísu. Svo margir elska þennan leik um allan heim, sem getur haft góð áhrif á heilu samfélögin.“