Fram kemur í skýrslu sem starfshópur um þjóðarleikvang fyrir inniíþróttir hefur skilað að fyrsta val starfshópsins væri að sá leikvangur sem fyrirhugað er að byggja verði staðsettur í Laugardalnum.

Enn fremur kemur fram í skýrslunni að sú staðsetning sem starfshópurinn hefur helst í huga sé vestan við svæði Þróttar. Þar gæti mannvirkið fallið inn í landslagið auk þess sem aðgengi að húsi á þeim stað væri mjög gott og bílastæði séu fyrir hendi að hluta.

Þá má nefna lóð sem liggur samhliða Suðurlandsbraut, bæði austan við Laugardalshöll svo og lóð milli Suðurlandsbrautar og Laugardalshallar. Rekstrarfélag Laugardalshallar hefur gert uppdrátt af húsi á lóð sem liggur á milli Suðurlandsbrautar og Laugardalshallar sem rekstrarfélag Laugardalshallar lét gera. Samkvæmt þeim teikningum myndi slíkt hús rúma 5.300 áhorfendur.

Hús á þeim stað gæti einnig samnýst Laugardalshöll sem sýningarhöll.Kostir við framangreinda staðsetningu eru að góð aðkoma er frá Suðurlandsbraut og nálægð við Laugardalshöll, sem getur verið kostur ef samnýta þarf húsin í því að byggja leikvanginn í Laugardalnum í kringum núverandi mannvirki sem til staðar eru við Laugardalshöllina.

Mennta- og menningarmálaráðherra skipaði starfshópinn til þess að afla upplýsinga um kröfur sem gerðar eru til mannvirkja sem hýsa alþjóðlega leiki og mót, auk þess að greina þarfir fyrir slíkt mannvirki hérlendis. Í starfshópinn voru skipaðir aðilar úr ráðuneytinu, Reykjavíkurborg, Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands (ÍSÍ) auk fulltrúa Handknattleikssambands Íslands og Körfuknattleikssambands Íslands.

Starfshópurinn aflaði gagna frá Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands (ÍSÍ) og þeim sérsamböndum sem mestra hagsmuna eiga að gæta við nýtingu þjóðarleikvangs.Skoðaðar voru alþjóðlegar kröfur sem eiga við um íþróttamannvirki í handknattleik og körfuknattleik og einnig skoðuð greining ÍSÍ og sérsambanda um æfingaþörf landsliða Íslands í öllum aldursflokkum helstu boltagreina auk fimleika.

Verkís verkfræðistofa var fengin til þess að gera kostnaðarmat á byggingu mannvirkis ásamt því að leggja mat á rekstrarkostnað, þar sem mið var tekið af nýreistri íþróttahöll í Þrándheimi í Noregi sem tekur 8.600 manns í sæti.

Hér má sjá höllina í Þrándheimi sem tekin er mið af við hugmyndavinnu um nýjan þjóðarleikvang fyrir inniíþróttir.

Verkís áætlar að byggingarkostnaður húss sem tekur 8.600 áhorfendur sé um það bil sjö milljarðar króna að meðtöldum virðisaukaskatti, en efri vikmörk eru 9,1 milljarður króna og neðri vikmörk 6,3 milljarðar króna. Til viðbótar bætist kostnaður við hönnun, ráðgjöf, umsjón og eftirlit upp á 1,7 milljarða króna og er heildarkostnaður því samtals 8,7 milljarðar króna.

Hús sem tekur 5.000 áhorfendur myndi hins vegar kosta 6,3 milljarða króna að byggja að meðtöldum virðisaukaskatti. Efri vikmörk eru 8,2 milljarðar króna og neðri vikmörk eru 5,7 milljarðar króna. Til viðbótar bætist hönnun, ráðgjöf, umsjón og eftirlit sem kostar 1.5 milljarða króna. Heildarkostnaður er því samtals 7,9 milljarðar króna.

Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ, segir vinnu starfshópsins hafa gengið vel og hann finni fyrir miklum vilja ráðherra og borgarstjórnar að fara í framkvæmdir eins fljótt og auðið er.„Það virðist vera þverpólitísk samstaða um að fara í þessar framkvæmdir og ég finn fyrir því að mennta- og menningarmálaráðherra sem og fulltrúar stjórnarandstöðu eru á einu máli að það sé góður tímapunktur núna til þess að ráðast í að láta húsið rísa. Um þetta ætti því að vera samstaða,“ segir Hannes í samtali við Fréttablaðið.

„Við vinnu starfshópsins var það haft að leiðarljósi að rekstrarkostnaður hússins væri sem minnstur, auk þess sem nýtingarmöguleikar þess væru sem mestir. Þannig gætu allar inniíþróttir átt heimili þarna og þá gætu íþróttir á borð við bardagaíþróttir, dans og fleira fengið aðstöðu í húsinu. Hægt verður einnig að nýta höllina undir tónleika og aðra menningarstarfsemi,“ segir hann enn fremur.

Hannes S. Jónsson er meðlimur í starfshópnum um nýja þjóðarleikvanginn.
Fréttablaðið/Eyþór

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, segir í frétt inni á vef Stjórnarráðsins að eftir að starfshópurinn hafi skilað af sér fyrrgreindri skýrslu sé boltinn nú hjá ríki og borg að tryggja fjármögnun verkefnisins og hefja í framhaldinu framkvæmdir.

„Við horfum til þess að efla mjög innviðafjárfestingar og nú hafa starfshópar skilað greiningu á ólíkum sviðsmyndum fyrir bæði inniíþróttir og knattspyrnu. Stór hluti undirbúningsvinnu er kominn vel á veg og mikilvægt að huga að næstu skrefum.

Fram undan er að tryggja fjármögnun og samvinnu við okkar helstu samstarfsaðila, ráðast í hönnun og grípa skófluna og byggja framtíðarleikvanga fyrir landslið Íslendinga, íþróttaunnendur og iðkendur á öllum aldri,“ segir Lilja um stöðu mála.

Starfshópurinn mun starfa áfram og gera nákvæmari greiningu á rekstri og tekjumöguleikum fyrir þjóðarleikvang inniíþrótta.