Til stendur að bæta tólf konum við undirbúningsnefndina fyrir Ólympíuleikana í Tókýó, nokkrum vikum eftir að forseti nefndarinnar, Yoshiro Mori, sagði af sér vegna þrýstings eftir að hafa látið niðrandi ummæli um konur falla í útvarpsþætti. Tilkynnt verður hvaða tólf konur koma inn í nefndina í dag og þá eru 19 konur í 45 manna undirbúningsnefnd.

Mori lét af störfum eftir að niðrandi ummæli hans um konur rötuðu í heimspressuna. Þar hafði Mori orð á því að það væri erfitt að vinna með konum því þær töluðu of mikið á fundum.

Eftirmaður Moris, Seiko Hash­imoto, segir að markmiðið sé að hlutfall kvenna sé fjörutíu prósent í nefndinni.