Franski miðjumaðurinn Adrien Rabiot ku vera búinn að skipta um umboðsmann.

Það er kannski ekki í frásögur færandi nema að mamma hans var umboðsmaður hans. Hún hefur núna fengið sparkið frá syninum.

Samningur Rabiot við Paris Saint-Germain rennur út í sumar og flest benti til þess að hann væri á leið til Barcelona en samningaviðræður gengu hægt og illa. Barcelona keypti því hollenska miðjumanninn Frankie de Jong frá Ajax í staðinn.

Rabiot er ekki í neinni draumastöðu en hefur hann ekki spilað fyrir PSG síðan um miðjan desember og ólíklegt er að það breytist.

Ekki er útséð með að Rabiot fari til Barcelona en hans fólk þarf þá að eiga frumkvæði að samningaviðræðum. Og leikmaðurinn myndi þá fá talsvert verra samningstilboð en áður.

Hinn 23 ára Rabiot hefur verið í herbúðum PSG síðan 2010. Hann hefur leikið 227 leiki fyrir liðið og skorað 24 mörk.