Vladimír Pútín, forseti Rússlands, kom skautakonunni Kamilu Valievu til varnar á sérstökum viðburði fyrir verðlaunahafa af Ólympíuleikunum í Peking.

Þar sagði Rússlandsforsetinn að lyf hefðu ekki haft nein áhrif á frammistöðu Valievu sem fagnar sextán ára afmæli sínu í gær.

Eins og frægt var Valieva hluti af sigurliði Rússa á listskautum en á Ólympíuleikunum kom í ljós að hún hafði fallið á lyfjaprófi í heimalandi sínu nokkrum vikum áður.

„Rússneska þjóðin og listskautaáhorfendur heimsins héldu með Kamilu. Henni tókst að sýna hæfileika sína við afskaplega erfiðar aðstæður og sýna list íþróttarinnar,“ sagði Pútín og hélt áfram:

„Það er ómögulegt að ná slíkri fullkomnun með notkun ólöglegra leiða eins og lyfjanotkun. Slíkar leiðir eiga ekki heima nálægt íþróttum eins og við vitum.“

Í sýninu fannst efnið Trimetazidine, sem er hjartalyf og er á bannlista lyfjaeftirlitsins og fullyrti lögmaður Kamilu að lyf hennar hefðu komist í snertingu við hjartalyf afa hennar.

Alþjóðaíþróttadómstóllinn úrskurðaði að Kamila mætti taka þátt í einstaklingskeppninni eftir að hafa fellt úr gildi keppnisbann yfir henni en beðið er úrskurðar hvort að lið Rússa verði dæmt úr leik í listskautum.