„Það er erfitt að lýsa þessari tilfinningu, það dettur inn seinna í kvöld. Það er frábært að hafa náð að vinna fyrsta titilinn,“ sagði Óttar Magnús Karlsson, hetja Víkinga eftir að hafa tryggt Víkingi bikarmeistaratitilinn í dag.

„Lögðum upp með þetta leikplan fyrir leik og það verður að hrósa öllum sem komu að þessu.“

Þetta var fyrsti titill Víkings í 28 ár og því fyrsti titill félagsins síðan hinn 22 ára gamli Óttar fæddist. nokkrum vikum eftir að hann sneri aftur í uppeldisfélagið.

„Arnar er með flotta hugmyndafræði og þetta verkefni hljómaði spennandi þegar ég samdi við félagið þótt að maður hafi kannski ekki búist við titli strax,“ sagði Óttar og bætti við:

„Jafnvel þótt að við hefðum ekki unnið titilinn í dag þá er framtíðin mjög spennandi hjá félaginu. Það eru spennandi ár framundan í Víkinni.“

Óttar Magnús skoraði eina mark leiksins af vítapunktinum.

„Púlsinn var helvíti hár, sérstaklega þegar ég sá Daða vera í boltanum,“ sagði Óttar glottandi og hélt áfram: „Á sama tíma var helvíti ljúft að sjá boltann í netinu.“