Það tók Christian Pulisic, leikmann Chelsea, aðeins 486 mínútur að ná sjöunda sætinu yfir flest mörk Bandaríkjamanns í ensku úrvalsdeildinni.

Pulisic skoraði fjórða mark sitt á einni viku í gær þegar hann skoraði annað mark Chelsea í 2-1 sigri á Watford, viku eftir að hafa skorað þrennu í 4-2 sigri á Burnley.

Alls hafa 22 leikmenn frá Bandaríkjunum skorað mark í ensku úrvalsdeildinni, þar af tveir markmenn (Tim Howard og Brad Friedel) og er Clint Dempsey markahæstur með 57 mörk í 218 leikjum.

Brian McBride sem lék með Everton og Fulham er næstur með 36 mörk og Roy Wegerle skoraði 13 mörk í 76 leikjum.

Joe-Max Moore, Carlos Bocanegra og Claudio Reyna eru allir á undan Pulisic í röðinni en náðu ekki tíu mörkum svo að líklegt er að Pulisic taki fram úr þeim á þessu tímabili.

Pulisic deilir sjöunda sætinu með Preki, amerískum framherja sem hafði gert það gott í bandarískum innifótbolta áður en Everton samdi við hann.